Lög Naglar


Lög Naglanna

Síðast uppfærð og samþykkt á aðalfundi Naglanna 5. apríl 2019

 

1. kafli

Félagið

1. grein

Félagið heitir Naglarnir, félag umhverfis- og byggingarverkfræðinema við Háskóla Íslands, og merki þess er:

2. grein

Tilgangur félagsins er:

a) Að gæta hagsmuna félagsmanna.

b) Að stuðla að sem bestri menntun og aðstöðu félagsmanna.

c) Að efla tengsl nemenda með öflugu félagslífi.

3. grein

Félagsmenn eru þeir nemendur Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands (HÍ), sem greitt hafa árlegt félagsgjald. Allir félagsmenn sem viðstaddir eru aðalfund, eða hafa lýst yfir framboði sínu áður, eru kjörgengir og eiga þar með kosningarétt á aðalfundi Naglanna. Aðrir en félagsmenn eru ekki kjörgengir og ekki boðaðir á aðalfund.

4. grein

Erlendir skiptinemar sem stunda grunnnám við deildina skulu vera undanþegnir félagsgjöldum. Stjórn félagsins skal í upphafi skólárs koma sér í samband við þá, ef einhverjir eru, og bjóða þeim í félagið. Stjórn félagsins skal eftir fremsta megni reyna að halda sambandi við skiptinema og passa að þeir séu inni í málefnum félagsins, kjósi þeir svo.

 

2. kafli 

Aðild og stjórn 

 

5. grein

Aðalfundur, sem haldinn skal í mars eða apríl, hefur æðsta valdið í málefnum félagsins. Stjórn félagsins skal boða aðalfund með minnst viku fyrirvara. Hann skal boðaður með áberandi auglýsingu á vefsíðu félagsins.

6. grein

Naglarnir er aðildafélag að Félagi verkfræðinema (FV) og heyrir undir lög þess. Félagsmenn Naglanna öðlast sjálfkrafa aðild að FV. Naglarnir er einnig aðili að Náttverki, hagsmunasamtökum nemenda við Verkfræði- og náttúruvísindasvið (VON).

7. grein

Stjórn félagsins skal boða til félagsfunda, með auglýsingu, með minnst eins dags fyrirvara.

8. grein

Stjórn félagsins skal skipuð fimm einstaklingum:

a) Formanni

b) Gjaldkera

c) Ritara

d) Skemmtanastjóra

e) Kynningarfulltrúa

Stjórn félagsins er kosin á aðalfundi félagsins að vori. Ef atkvæði innan stjórnar falla jöfn skal atkvæði formanns félagsins ráða.

9. grein

Hverfi stjórnarmeðlimur Naglanna frá námi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ, skal sá hinn sami víkja úr sæti sínu í stjórn. Verndari tekur þá sæti hans í stjórn en hlutverkum innan stjórnarinnar skal stjórnin sjálf sjá um að endurraða.

10. grein - Hlutverk stjórnarinnar

Stjórnin skal hafa yfirumsjón með starfsemi félagsins, vinna að hagsmunamálum nemenda og vera talsmaður þeirra út á við. Stjórnin skal jafnframt stuðla að upplýsingaflæði milli ráðamanna umhverfis- og byggingarverkfræðideildar og nemenda.

  • Formaður boðar til stjórnarfunda og skal sitja fyrir hönd félagsins í stjórn FV. Jafnframt er formaður einn þriggja fulltrúa nemenda á deildarfundum Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar (U&B). Formaður situr í deildarráði U&B og situr auk þess í stjórn Náttverks fyrir hönd nemenda U&B samkvæmt lögum samtakanna.
  • Gjaldkeri er varaformaður félagsins og sér um fjármál og bókhald þess auk þess að sjá um sameiginlegan sjóð FV þriðja hvert ár. Gjaldkeri er einn þriggja fulltrúa nemenda á deildarfundum U&B. Gjaldkeri skal jafnframt vera varamaður formanns í stjórn Náttverks.
  • Ritari skrifar fundargerðir og skulu þær vera aðgengilegar fyrir félagsmenn. Ritari skal halda utan um tillögur að lagabreytingum og stýrir kosningu um þær. Ritari sér einnig um heimasíðu félagsins og nýtur við það aðstoðar tölvunefndar. Einnig skal ritari sjá um að uppfæra símaskrá og lög Naglanna á heimasíðu félagsins. 
  • Skemmtanastjóri skal hafa umsjón með skipulagningu vísindaferða og annast aðrar skemmtanir félagsins í samvinnu við aðra stjórnarmeðlimi félagins.
  • Kynningarfulltrúi hefur umsjón með kynningarstarfsemi félagsins út á við. Kynningarfulltrúi situr í árshátíðarnefnd FV.

11. grein - Stjórnarskipti

Við stjórnarskipti á aðalfundi skulu nýkjörin og fráfarandi stjórn dansa Stjórnarskiptadansinn. Stjórnirnar skulu mynda einfalda röð (ef húsrúm leyfir) meðan ádansinum stendur. Undir dansinum skal leikin taktföst músík. Með þessum táknrænaog skemmtilega hætti er nýkjörin stjórn boðin velkomin og sú fráfarandi kvödd á viðeigandi hátt.

Formleg stjórnarskipti skulu fara fram á fundi þar sem fráfarandi stjórnafhendir þeirri nýkjörnu lyklavöldin og fræðir hana um skyldur sínar. Fundur þessi skal haldinn eins fljótt og auðið er eftir aðalfund.

Lýsingarmynd Stjórnarskiptadans má sjá hér fyrir neðan:

 

12. grein

Á aðalfundi skal kjósa, auk stjórnarmeðlima sem um er getið í 7. gr.:

a) Tvo skoðunarmenn ársreikninga.

b) Einn alþjóðafulltrúa sem jafnframt situr í stjórn IAESTE. Alþjóðafulltrúi sér um að koma sér í samband við skiptinema í grunnámi við deildina og verður tengiliður þeirra inn í félagið. Fulltrúinn er kjörinn til tveggja ára.

c) Einn umhverfis- og kennslumálafulltrúa. Fulltrúinn skal vera fyrirmynd nemenda í umhverfismálum og sjá til þess að hugað sé að umhverfismálum innan U&B.  Fulltrúinn skal sjá um nemendaráðgjöf og kemur sjónarmiðum nemenda í kennslumálum á framfæri. Fulltrúinn er jafnframt einn þriggja fulltrúa nemenda á deildarfundum U&B og fulltrúi Nagla í Umhverfisnefnd Verkfræði-og náttúruvísindasviðs.

d) Tvo hirðljósmyndara sem í sameiningu varðveita merki Naglanna á merkisstundum.

e) Einn íþróttafulltrúa sem hefur umsjón með íþróttaviðburðum á vegum félagsins, auk þess að sjá um tengsl þess við íþróttamót Háskóla Íslands.

f) Einn einstakling í embætti verndara, öðru nafni hagsmunafulltrúi, sem vakir yfir æru félagsmanna. Verndari situr á friðarstóli og er hafinn yfir öll deilumál sem kunna að koma upp innan félagsins. Allir félagsmenn geta leitað til verndara, hvenær sem þeim þykir þörf, og fengið leiðsögn. Sé aðstoðar verndara óskað í málum sem koma upp utan félagsins skal hann ávallt taka hlið félagsmanna.

g) Tvo einstaklinga í árshátíðarmyndbandsnefnd. 

 

3. kafli

Fjármál

13. grein

Gerist stjórn sem heild eða einstakir stjórnarmeðlimir brotlegir við lög Naglanna á starfsári sínu þurfa þeir að taka út refsingu á aðalfundi. Refsingin skal ákvörðuð af fráfarandi verndara og skal hún tekin út á aðalfundi fyrir stjórnarskiptadansinn.

14. grein - Skoðunarmenn ársreikninga og reikningsárið

Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn ársreikninga, þeir eru kosnir til eins árs í senn og mega ekki vera í stjórn félagsins. Skoðunarmenn ársreikninga skulu sannprófa, að reikningum félagsins beri saman við bækur þess, enda eiga þeir aðganga að öllum bókum og skjölum, hvenær sem er. Stjórninni er skylt að veita skoðunarmönnum nauðsynlegar upplýsingar um fjármál félagsins. Reikningsár félagsins fylgir stjórnartímabilinu milli aðalfunda félagsins.

Reikningsskilum ber að ljúka svo tímanlega, að skoðun geti farið fram áður en aðalfundur er haldinn. Á aðalfundi skal ávallt leggja fram skoðaða reikninga fyrir liðið tímabil og taka ákvarðanir um þá. Ef aðalfundur fellir tillögu um samþykki reikninga þá getur hann ákveðið, að yfirskoðun skuli fara fram eftir þeim reglum, sem fundurinn setur. Að þeirri yfirskoðun lokinni, skal boða til framhaldsaðalfundar, sem tekur ákvörðun um reikningana.

15. grein

Félagsmenn sem gera fjárhagslegar skuldbindingar í nafni félagsins án samþykkis stjórnar eru persónulega ábyrgir fyrir þeim skuldbindingum.

16. grein

Ef starfsemi félagsins leggst niður skulu eignir þess og tæki vera í vörslu deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar þar til félagið verður endurvakið.

 

4. kafli

Lagabreytingar

17. grein

Lögum þessum, verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breytingar nái fram að ganga. Lagabreytingatillögur verða ekki teknar til atkvæðagreiðslu nema a.m.k. 2/5 félagsmanna séu viðstaddir. Lagabreytingar öðlast þegar gildi.

18. grein

Stjórn er heimilt að boða lagabreytingafund í vikunni fyrir aðalfund til að flýta fyrir starfsemi aðalfundar. Þá þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breytingatillögur nái fram að ganga. Breytingatillögur verða ekki teknar til atkvæðagreiðslu nema 2/5 félagsmanna séu viðstaddir. Þær lagabreytingar sem samþykktar eru á lagabreytingafundi öðlast þegar gildi. Stjórn félagsins skal boða lagabreytingafund með minnst viku fyrirvara. Hann skal boðaður með áberandi auglýsingu á vefsíðu félagsins.

19. grein

Lagabreytingatillögu skal skilað skriflegri til stjórnar minnst þremur dögum fyrir lagabreytingafund og skal hún auglýst á heimasíðu félagsins félagsmönnum til kynningar, minnst tveimur dögum fyrir lagabreytingafund. Ef ekki var boðað til lagabreytingafundar gildir þessi grein fyrir aðalfund í stað lagabreytingafundar.

 

5. kafli

Annað

20. grein

Vísindamaður ársins þ. e. sá/sú sem hefur mætt flestar vísindaferðir og er með besta skráningartímann, skal verðlaunaður á aðalfundi félagsins.

21. grein

Stanley-Cup skal haldinn á hverju ári eftir hinum sérstöku Stanley-Cup reglum. Sigurvegari keppninnar skal hljóta gullhúðaða Stanley-hamarinn sem farandbikar að launum. Bikarnum skal skilað á aðalfundi. Hafi Stanley-Cup ekki verið haldið á yfirstandandi ári skulu fráfarandi stjórnarmeðlimir taka út refsingu sem nemur einu bong-i á hvern stjórnarmeðlim. Skal refsingunni framfylgt á aðalfundi.

22. grein

Reglur Stanley-Cup eru sem svo: Bjór (þá helst 330 ml) skal drukkinn í einum sopa, áður en hafist er handa við að negla nagla (þá helst í spýtukubb, nógu þykkan) þar til haus hans er kominn niður. Fyrirkomulag keppninnar er í höndum stjórnar, en hentugt er að setja hana upp sem útsláttarkeppni, með eða án riðla, eftir fjölda þáttakenda.

23. grein

Formaður skal kunna minnst 10 fyrstu aukastafi í pí. Óski einhver félagsmaður eftir því að formaður telji upp téða 10 aukastafi skal formaður verða við því eigi síðar en 5 mínútum eftir að slík ósk er tilkynnt. Minnst vika verður að líða milli áskorana. Nú bregst minni formanns og hann fer með vitlausa talnarunu eða hann hafnar áskoruninni. Skal formaður þá fara í skammarkrókinn í 5 mínútur, þar sem hann verður að snúa að veggjamótunum og er óheimilt að gefa frá sér hljóð eða stíga út fyrir jaðar skammarkróksins. Brjóti formaður téðar reglur skal tíminn endurræstur.

Skammarkrókurinn er skilgreindur sem ferhyrnt, jafnhliða svæði að stærðinni 0,64 fermetrar þar sem tveir veggir mætast undir 90° horni. Á meðan refsitímanum stendur er félagsmönnum óheimilt að hafa samskipti við formann. Nú brýtur félagsmaður þá reglu. Skal hann fara í annan skammarkrók í 5 mínútur og fylgja sömu mannréttindaskerðingu og formaður í þann tíma.

Nú tekst formanni að fara með rétta aukastafarunu. Skal áskorandinn þá verða fyrir þeirri refsingu sem útskýrð er hér að ofan.

24. grein

Bong er þung refsing þar sem áfengum drykk er hellt upp í hinn brotlega í gegnum þar til gerða trekt með áfastri slöngu. Áfengi sem nota skal í refsinguna er að vali þeirra er framkvæma refsinguna og skal lágmarksrúmmál drykksins vera 330 mL. Mælst er til þess að notaður verði bjór.

Til að tryggja að allir þeir glæsilegu viðburðir sem Naglarnir standa fyrir séu skrásettir skulu hirðljósmyndarar setja inn myndir af hverjum einstökum viðburði á annaðhvort Naglasíðu eða þartilgerða facebook-síðu að viðurlagðri refsingu: 1 bong á hirðljósmyndara fyrir hvern viðburð sem þetta misferst. Skoðunarmenn ársreikninga skulu fara yfir ljósmyndirnar og kveða á um hve mikið ljósmyndarar skulda í bong, sem skal svo framfylgt á Aðalfundi.

Ritari skal reyna eftir fremsta megni að rita fundargerðir og sjá til þess að þær séu aðgengilegar félagsmönnum. Komi fram ábending um að þessu hafi ekki verið framfylgt, skulu skoðunarmenn ársreikninga fara yfir réttmæti ábendingarinnar og vísa því til stjórnar. Nú fara stjórnarmenn yfir málið ásamt verndara Naglanna og er þeim heimilt að dæma ritara til refsingar, 1 bong.

25. grein

Í nýnemaferð verði nýnemum boðið upp á að bjóða sig fram í starf nýnemafulltrúa. Þessi fulltrúi myndi verða tengiliður fyrsta ársins við stjórn Naglanna og eigi að geta komið til stjórnar með allar þær spurningar sem nýnemar kunni að hafa varðandi félagsstarf eða annað Naglatengt. Er sá Nagli skyldugur til þess að halda að minnsta kosti eitt árapartí.

26. grein

Skíðaferð er jafnan árlegur viðburður á starfsári félagsins. (Þá er oftast farið norður á Akureyri, yfir helgi, og gist á Ytri-Vík, Dalvíkurbyggð). Sé farið í skíðaferð á starfsári félagsins, og gist utan þéttbýlis, er það áskilið að rútan "heim" úr bænum á laugardagskvöldinu, fari ekki fyrr en klukkan tvö eftir miðnætti. Skal stjórnin skipuleggja ferðina með þetta ákvæði í huga.

27. grein

Nýr formaður skal vera krýndur af fráfarandi formanni með kórónu Naglanna og veldisnaglanum ásamt skikkju á aðalfundi. Skal fundinn hæsti stólinn sem er á fundarstað og verður það kallað hásæti nýkjörins formanns og þarf hann að eyða að minnsta kosti fimm mínútum samfleytt í stólnum.

28. grein

Naglar skulu eiga einn happdrættismiða í áskrift í HHÍ til þess að freista þess að verða ríkasta nemendafélag á Íslandi.