Fossinn
Sett inn 10th Aug 2017 02:08:28 í Almennt
Íbúar í Grafarvogi hafa í sumar ítrekað orðið varir við ólykt, sem þeir telja berast frá atvinnusvæðinu í Gufunesi. Hafa menn talað um sorplykt í þessu sambandi og bent á að óvenju stórir ruslahaugar blasi nú við fólki á svæði Íslenska gámafélagsins, sem er eitt fyrirtækjanna á svæðinu. Auk þess eru Sorpa og Moldarblandan-gæðamold ehf. með endurvinnslu og meðhöndlun úrgangs á svæðinu.
„Ég hef búið hér í 12 ár og aldrei orðið var við svona lykt áður, en nú hefur ástandið verið þannig að maður hefur oft hreinlega ekki lyst á að sitja úti á hlýjum sumarkvöldum,“ segir Hallgrímur Beck íbúi í Rimahverfi.
Þær Ingibjörg Eva og Dagný Edda, sem báðar búa í Rimahverfinu, staðfesta að þær hafi fundið sorplykt berast yfir hverfið nú í sumar. Ingibjörg Eva, hefur búið í hverfinu í ein 25 ár og varð fyrst vör við lyktina í mars-apríl á þessu ári og nú aftur í sumar.
Lyktin er þó að sögn þeirra og fleiri íbúa mismikil eftir dögum, vindátt og veðri og eins virðast íbúar í þeim hlutum Rimahverfis sem fjær eru Gufunesi ekki verða varir við lyktina.
Gat ekki hugsað sér að vera utandyra
Þegar fyrirspurn um ólyktina er lögð fyrir lokaðan Facebook-hóp íbúa í Grafarvogi kemur í ljós að íbúar í Borgarhverfi, Hamrahverfi og Foldahverfinu hafa einnig orðið varir við ólyktina. „Þessi ruslafýla kemur alla leið upp í Foldahverfi í vissri vindátt,“ segir einn. „Kannast við það í vissri átt í Hamrahverfi segir annar“ og fleiri taka í sama streng.
Einn viðmælandi, sem búið hefur í Rimahverfinu í rúman áratug, sagði slíkan yfirgnæfandi fnyk hafa borið fyrir vit sér nú í vor að hann hefði ekki geta hugsað sér að vera utandyra. Síðan hafi hann orðið var við lyktina í tvígang svo hann muni, en það sé í ekki fyrr en nú í ár sem hann hafi orði var við slíka ólykt.
„Ekki eðlileg lykt í íbúðahverfi“
Snorri Helgason, rekstrarstjóri Skemmtigarðsins í Grafarvogi, sem staðsettur er í næsta nágrenni við atvinnusvæðið í Gufunesi, staðfestir að þangað berist ólykt. „Þetta er algjör viðbjóður þegar þetta kemur og við erum búin að vera í sambandi við Heilbrigðiseftirlitið frá því í fyrra með þetta,“ segir hann.
„Við erum alltaf að láta vita af þessu og þeir hafa verið duglegir að koma til okkar. Þeir eru væntanlega að gera sitt besta til að finna út úr þessu.“
Forsvarsmenn Skemmtigarðsins urðu fyrst varir við lyktina í einhverjum mæli eftir að þeir fluttu skrifstofur fyrirtækisins upp eftir í maí í fyrra. „Þá urðum við strax varir við lyktina,“ segir Snorri og kveður hana berast inn á skrifstofuna.
„Eins og staðan er núna þá sendum við Heilbrigðiseftirlitinu tilkynningu þegar það berst ólykt og þá reynir starfsmaður frá Heilbrigðiseftirlitinu að koma og finna hvaðan lyktin kemur.“
Starfsmenn eftirlitsins hafa að hans sögn komið á staðinn í þrígang nú í sumar þegar hann hefur sent þeim línu. „Þeir hafa alveg fundið lyktina og vita að hún er til staðar.“
Verulega bagalegt sé hins vegar hve langan tíma það virðist taka Heilbrigðiseftirlitið að greina nákvæmlega hvaðan lyktin kemur. „Við erum með tjaldstæði hérna svæðinu og þetta bitnar á okkar viðskiptavinum,“ segir Snorri. „Það hafa líka komið hingað viðskiptavinir sem eru úr hverfinu og þeir hafa látið okkur vita að lyktin berist alveg niður í garðinn hjá fólki. Þegar fólk er að grilla eða er úti á verönd, þá er þetta algjör viðbjóður og þetta er ekki eðlileg lykt í íbúðahverfi.“